Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Fjölskyldu sagan

Saga Geirs Snorrasonar og hans lífshlaup

Stutt æviágrip.

Snorri og Þóra.

Snorri Arnfinnsson fæddist á Brekku í Nauteyrarhreppi í Ísafjarðardjúpi, þann 19. júlí 1900. Þar ólst hann upp við búskap og fór síðan í Bændaskólann að Hvanneyri og varð búfræðingur. Hann vann á því merkisbúi Korpúlfsstöðum hjá Thor Jensen um tíma. En eftir að faðir hans dó, tók hann við búskapnum á Brekku. Hann var ásamt öðrum ungum manni í sveitinni með þeim fyrstu til að eignast dráttarvél og fóru þeir á milli bæja og unnu ýmis verk fyrir bændur. Hann mun hafa verið um þrítugt þegar hann kynntist Þóru Sigurgeirsdóttur.

Þóra fæddist á Kirkjubæ við Ísafjarðardjúp þann 12. september 1913, hún fluttist til Ísafjaðar með fjölskyldu sinni, þar sem hún ólst upp. Hugsanlega kom Snorri í kaffi í Herkastalann þar sem vann sem ung stúlka.

Búskapur Snorra og Þóru á Brekku stóð ekki lengi og fluttust þau á Ísafjörð þar sem Geir elsti sonur þeirra hjóna fæddist þann 31. ágúst 1932. Þaðan lá leiðin til Siglufjarðar, þar sem Snorri tók við kúabúinu á Hóli sem var í eigu Siglufjarðarbæjar. Þar fjölgaði í fjölskyldunni um þrjá stráka, Þór, Kári og Valur fæddust á árunum 1933, 1935 og 1936. Svo gerðist það að í næstu kosningum að meirihlutinn féll úr bæjarstjórn og aðrir tóku við sem ekki sættu sig við gallharðan framsóknarmann sem bústjóra, eftir því sem sagan segir og þar með lauk Siglufjarðartímabilinu. Þá fluttist fjölskyldan í Borgarnes og hófu hjónin rekstsur veitingar-og gististaðar. Í Borgarnesi bættist Örn fimmti sonurinn við barnahópinn árið 1940.

Sagt er að Borgarnesdrengir hafi tekið þessa polla að norðan og tuskað þá all verulega til en þeir forhertust bara við þá meðferð og komu gallharðir til Blönduós, þar sem þeir létu söguna ekki endurtaka sig og voru fyrri til að láta vita hvað þeir gátu þegar slagsmál voru annarsvegar.

Það var árið 1943 sem Hótel Blönduós varð til og enn bætist við barnahópinn einn sonur til sem fékk nafnið Sævar, enda fjölskyldan búin að koma sér fyrir, rétt við sjávarfjöruna. Á árunum 1946 og 1948 bættust svo loksins tvær dætur í barnahópinn, þær Inga Jóna og Sigríður Kristín.

Átta börn á sextán árum, næstum því stanslaust bleyjuþvottur í sautján ár. Það er gaman að skoða þessi nöfn sem börn Þóru og Snorra fengu, fyrst í stað mjög stutt nöfn síðan mjög löng þegar dæturnar komu til sögunnar.

Snorri Arnfinnsson var mikil félagsvera og tók þátt í félagsstarfinu á Blönduósi af miklum krafti. Hann vann mikið með Ungmennafélaginu Hvöt og síðan Ungmennasambandi A-Hún. Það var Ungmennafélagið sem stóð fyrir jólaballi fyrir börnin á hverju ári og fylltist salurinn á hótelinu, sem kallaður var Hljómskálinn af ungu fólki snemma í desember að útbúa marglita jólapoka úr kreppappír sem notaðir voru undir ýmislegt góðgæti sem börnin fengu með sér heim að jólaballinu loknu. Upphaflega byrjuðu jólaböllin á hótelinu þar sem öllum var boðið uppá kakó og tertur og síðan var marserað út í samkomuhús.

Snorri var stofnfélagi í Lions-klúbbi Blönduóss og starfaði í leikfélaginu og tók þátt í nokkrum leiksýningum. Hann var í skákklúbbi og síðan en ekki síst var hann flokksbundinn framsóknarmaður og kom aldrei til greina að versla annarstaðar en í Kaupfélaginu.

Þóra var hins vegar hógværari í félagslífinu og var alla tíð í Kvenfélaginu Vöku á Blönduósi. Þar kemur auðvitað margt til, það voru ekki eins margir möguleikar fyrir konur í félagslífinu og stórt heimili. Hún saumaði mikið af fötum á börnin sín og jafnvel fyrir aðra mikið lá við. Það var mikið um að vera hjá kvenfélaginu í desember og fengu þær aðstöðu á hótelinu til að baka smákökur og fyrir “gamlamennaballið” svokallaða. Það voru kvenfélagskonur sem buðu eldri borgurum til jólaskemmtunar á hótel Blönduós og þar var auðvitað kaffi og kökur að góðum og gömlum sið. Það var líka fastur siður að gefa sveskjugraut með rjóma út á við þetta tækifæri. Börn sem fengu að þvælast um þegar þessi bakstur stóð yfir fengu að smakka brenndu og gölluðu kökurnar en hinar vour ekki í boði.

Einhver heyrði því hvíslað að yngismeyjar á Kvennaskólanum á Blönduósi hafi verið varaðar við sonum hótelstjórans. Hvað til er í því veit ég nú ekki, en hitt er víst að Kvennaskólinn eða réttara sagt námsmeyjar skólans höfðu mikið aðdráttarafl á alla ungu mennina í sýslunni og miklar líkur eru á því að a.m.k. tveir Snorrasynir hafi fundið eiginkonur sínar úr hópi þeirra.

Þau hjónin störfuðu saman við rekstur hótelsins og byggðu við húsið svo þar fengust fleiri herbergi og góður veitingastaður. Árið 1960 veiktist Snorri alvarlega og var óvinnufær eftir það. Þóra sá um rekstur hótelsins ásamt Val syni sínum í rúmt ár og þá var reksturinn seldur Þorsteini og Hauk Sigurjónssonum. Þóra starfaði áfram hjá nýja hótelstjóranum um tíma. Síðar fluttust þau í Hveragerði, þar sem Þóra var matráðskona í öðru af tveimur mötuneytum elliheimilsins Áss.

Snorri lésti á sjúkrahúsinu á Selfossi 28. júní 1970. Nokkrum árum síðar fluttist Þóra aftur á Blönduós og vann á saumastofu Pólarprjóns þar til hún fór á eftirlaun. Þóra lést 9. maí 1999.

Heimild: Ættarmótsbók.

Snorri, Þóra og stór fjölskyldan.
Sundstræti 17
Hér bjuggu Hjónin Sigurgeir Sigurðsson og Ingibjörg Þórunn Jóhannsdóttir ásamt börnum sínum:
Jóhann Árni Sigurgeirsson 1911 – 1987
Þóra Sigurgeirsdóttir 1913 – 1999
Svava Sigurgeirsdóttir 1915 – 1990
Gústaf Sigurgeirsson 1919 – 1993
Sumarliði Sigurgeirsson 1922 – 1936
Elísabet Þórunn Sigurgeirsdóttir 1926
Þorgerður Sigurgeirsdóttir 1928
Einnig dóttir Jóhanns Ingibjörg Þórunn Jóhannsdóttir 1933